Aukning á aðstoðarbeiðnum til hjálparsamtaka

Aukning hefur orðið á aðstoðarbeiðnum til hjálparsamtaka og félagsþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldursins.

Atvinnuleysi er helsta ástæða þess að fólk leitar til hjálparsamtaka. Aðrir hópar sem leita aðstoðar hjálparsamtaka er fólk sem framfleytir sér á örorkubótum, ellilífeyri og lágum launum. Til samanburðar voru lág laun oftast nefnd sem ástæða þess að fólk leitaði til hjálparsamtaka í könnun Félagsvísindastofnunar frá árinu 2010, tveimur árum eftir efnahagshrun.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu félagsvísindastofnunar Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka – Hvaða hópar leita aðstoðar? sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Höfundar skýrslunnar eru Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir. 

Markmið úttektarinnar er að kanna hvers konar aðstoð hjálparsamtök á Íslandi veita, kortleggja hvaða hópar leita aðstoðar og kanna viðhorf til aðstoðarinnar. Hjálparsamtökin sem um ræðir eru Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og Mæðrastyrksnefnd. Rétt er að nefna að Hjálparstarf kirkjunnar veitir víðtækari þjónustu en hin samtökin, þar sem félagsleg ráðgjöf er veitt samhliða úthlutun á inneignarkortum.

Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að fólk er almennt ánægt með viðmót hjálparsamtaka þó að ýmislegt megi betur fara, og þá sérstaklega myndun biðraða utandyra þegar matarúthlutun fer fram hjá Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd. Einnig hugnast flestum inneignakort í matvöruverslunum betur en matarúthlutanir.

Skýrsluna í heild má lesa hér:

Ásdís A. Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir (2020). Úttekt á fyrirkomulagi úthlutana og ráðgjafar hjálparsamtaka – Hvaða hópar leita aðstoðar. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Deila efni:

Share on facebook
Share on twitter

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *