Útdráttur: Eins og alkunna er hefur efnahagshrunið haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Mikið hefur verið fjallað um áhrif þess á rekstur hins opinbera og einkafyrirtækja, en minna hefur farið fyrir umfjöllun um áhrif efnahagsástandsins á samtök þriðja geirans. Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum eru félagasamtök hluti af þriðja geiranum. Það sem einkennir þau er að starfsemin er hvorki hluti af opinberum rekstri né einkarekstri og starfræksla hans hefur ekki hagnað að markmiði. Félagsaðild er frjáls og þátttaka sjálfboðaliða er að einhverju leyti hluti af starfinu. Að baki starfseminni liggja hugsjónir og/eða ákveðin hugmyndafræði og markmiðið er oft að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins (Steinunn Hrafnsdóttir, 2008). Vegna þessarar sérstöðu félagasamtaka er áhugavert að skoða hvaða áhrif efnahagskreppur hafa á starfsemi félagasamtaka, þar á meðal hvernig tekjur og tekjusamsetning þeirra hafa breyst í kjölfar efnahagshrunsins. Í þessari grein verður fjallað um fyrstu niðurstöður rannsóknar á áhrifum núverandi efnahaghruns á félagasamtök í velferðarþjónustu á Íslandi með áherslu á að greina breytingar á tekjum þeirra.
Steinunn Hrafnsdóttir og Ómar H. Kristmundsson, 2010.
Hlaða niður