Úrdráttur: Félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, sem eru hluti af hinum svokallaða þriðja geira, hafa um langa hríð gegnt mikilvægu hlutverki í íslenska velferðarkerfinu. Þrátt fyrir þetta skortir upplýsingar um viðfangsefni, starf þeirra og umfang. Í greininni koma fram niðurstöður frumgreiningar á þessum viðfangsefnum. Notast er við greiningalíkön fræðimanna og alþjóðleg flokkunarkerfi til að skilgreina mismunandi hlutverk þeirra, greina fjölda og rekstrarumfang og mismunandi tengsl við hið opinbera. Byggt er á gagnasafni höfunda um áhrif efnahagskreppunnar á rekstarumhverfi þriðja geirans en einnig ritum um starfssögur einstakra félaga og sjálfseignarstofnana. Á grundvelli frumgreiningar á þessum þáttum er staðfest að hlutverk félagasamtaka og sjálfseignarstofnana á Íslandi í velferðarmálum er viðamikið en hefur tekið talsverðum breytingum á 20. öld. Með sama hætti hafa samskipti við hið opinbera breyst. Árið 2009 störfuðu skv. skilgreiningu höfunda 144 félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, þar af voru þau fyrrnefndu 85% heildarfjöldans. Tæplega 6 af hverjum 10 voru aðilar sem höfðu að meginmarkmiði að veita opinbera þjónusta, um 2 af hverjum 10 voru með meðlimamiðaða starfsemi svo sem sjálfshjálparhópa og svipað hlutfall voru hagsmuna- og baráttusamtök. Rekstrarumsvif þeirra sem sinna opinberri þjónustu voru lang mest og að sama skapi fjöldi launaðra starfsmanna. Um 2/3 hlutar rekstraraðila voru með einn eða tvo aðaltekjustofna. Algengast var að mikill hluti tekna kæmi úr ríkissjóði. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi vandaðrar opinberrar tölfræði og rannsókna á starfsemi þriðja geirans á Íslandi.
Steinunn Hrafnsdóttir og Ómar H. Kristmundsson, 2011.
Hlaða niður