Samningar í 3ja geiranum – skipulögð framtíð

Hádegisfundur Almannaheilla og Vaxandi

Á rafrænum hádegisfundi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við Háskóla Íslands verður umfjöllunarefnið; Samningar í þriðja geiranum – skipulögð framtíð.


Þóra Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags, mun fjalla um gerð þjónustusamninga hjá almannaheillasamtökum. Þóra hefur víðtæka reynslu í þriðja geiranum en starfsemi þriðja geirans er án hagnaðarvonar. Hún hefur einnig samanburð og reynslu af stjórnun hjá einkafyrirtækjum sem og opinberum aðilum. Hún situr og hefur setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana og stýrt mörgum þeirra sem stjórnarformaður.

Síðastliðin 20 ár hefur Þóra verið framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags sem stofnað var 1958 af foreldrum barna með þroskaskerðingar er vildu breyta stofnanahugsun í þjónustu við fatlað fólk í einstaklingsmiðaðan stuðning með mannréttindi að leiðarljósi. Félagið starfar enn á þessum forsendum.

Þóra er með MBA í stjórnun frá HÍ og UD í Iowa USA. Það nám byggði hún á grunni rekstrarstjórnunarnáms frá EHÍ og viðskiptanáms í markaðsfræði og stjórnun frá HÍ. Hún lauk B.S. grunnnámi við HÍ í landfræði með jarðfræði sem aukagrein.

Víðtæk og fjölbreytt reynsla Þóru úr íslensku viðskiptalífi hefur reynst vel í hinum ýmsu störfum, m.a. sem fjármálastjóri MH, markaðsstjóri Landmælinga Íslands, framkvæmdastjóri saltfiskverkunar Útvers, rekstrarstjóri líftæknifyrirtækisins UVS, setið í verkefnisstjórnum nokkurra þróunar- og uppbyggingarverkefna ásamt því að vera alin upp í sveit á Vestfjörðum og unnið í fiskvinnslu.

Viðburður fer fram á Zoom. Frekari upplýsingar á Facebook.

Samfélagsleg verkefni sem vekja athygli: Hádegisfundur Almannaheilla og Vaxandi

Á rafrænum hádegisfundi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við Háskóla Íslands fáum við góða gesti frá almannaheillasamtökunum Ungum umhverfissinnum, Góðvild og Geðhjálp.

Samtökin hafa undanfarið vakið athygli á mikilvægum samfélagslegum málefnum með nýskapandi aðferðum.

Dagskrá:

1. Egill Ö. Hermannsson, gjaldkeri Ungra umhverfissinna

Ungir umhverfissinnar hafa nýlokið herferð Loftslagsverkfallsins #AÐGERÐIRSTRAX sem var til þess gerð að vekja athygli á þörfinni á róttækari loftslagsaðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Egill mun kynna herferðina.

2. Sigurður Hólmar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Góðvildar

Góðvild hefur aukið sýnileika málefna langveikra og fatlaðra barna á Íslandi með þáttunum Spjallið með Góðvild sem sýndir hafa verið á Vísi.is í vetur. Sigurður mun segja okkur frá verkefninu.

3. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Geðhjálp hefur verið áberandi undanfarnar vikur með verkefninu G vítamín þar sem landsmenn eru minntir á mikilvægi geðræktar og geðheilbrigðis. Grímur mun kynna verkefnið. 

Hér er viðburðuinn á Facebook.

Markaðssetning félagasamtaka: Hádegisfundur Almannaheilla og Vaxandi

Á rafrænum hádegisfundi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við Háskóla Íslands verður umfjöllunarefnið markaðssetning félagasamtaka.

Gestur fundarins er Laila Sæunn Pétursdóttir sem hefur umsjón með markaðsmálum Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda. Hún fjallar um undirbúning og framkvæmd markaðsherferða og kynnir markaðsherferðir sem hún hefur unnið.

Er markaðsstarf félagasamtaka frábrugðið öðru markaðsstarfi?

Samspil samfélagsmiðla og fjáröflunar félagasamtaka

Hádegisfundur Almannaheilla og Vaxandi

Með tækniframförum og tilkomu samfélagsmiðla hefur markaðssetning og fjáröflun félagasamtaka tekið miklum breytingum.

Á rafrænum hádegisfundi Vaxandi og Almannaheilla 18.mars nk. mun Andri Árnason hjá Takk fjalla um notkun samfélagsmiðla við fjáraflanir félagasamtaka. Takk er markaðsfyrirtæki sem vinnur við að tengja einstaklinga við góð málefni.

Málþing Almannaheilla og Vaxandi: Hvað er samfélagsleg nýsköpun?

Á rafrænu málþingi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun við Háskóla Íslands, 11. mars nk. verður umfjöllunarefnið samfélagsleg nýsköpun. Með samfélagslegri nýsköpun er átt við nýjar eða breyttar leiðir til að mæta þörfum samfélagsins með framlagi notenda, starfsfólks og annarra hagsmunaaðila.Hver eru dæmi um samfélagslega nýsköpun?

Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor í félagsráðgjöf mun fjalla um samfélagslega nýsköpun á vettvangi félagasamtaka. Í kjölfarið mun Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri Stílvopsins segja frá samfélagslegum nýsköpunarverkefnum á sviði samfélagslista.

Stjórnvöld hafa stutt við samstarfsverkefni Almannaheilla og Vaxandi í þeim tilgangi að efla félagslegt frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun.

Viðburður fer fram á Zoom. Frekari upplýsingar hér.

Skattalegt umhverfi þriðja geirans eflt: Málþing Almannaheilla og Vaxandi

Nú er til umræðu frumvarp til laga sem felur í sér breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með það að leiðarljósi að styrkja og efla skattalegt umhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir svonefndan þriðja geira.

Á rafrænu málþingi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun hjá Háskóla Íslands, 11. febrúar nk. verður frumvarpið í brennidepli. Fjármálaráðaherra ávarpar málþingið, efni frumvarpsins verður kynnt og í lokin verða umræður.

Stjórnvöld hafa stutt við samstarfsverkefni Almannaheilla og Vaxandi í þeim tilgangi að efla félagslegt frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun. Hafa ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, formaður Almannaheilla og rektor Háskóla Íslands skrifað undir sameiginlega viljayfirlýsingu þess efnis.

Dagskrá málþings er sem hér segir:

1. Setning málþings, Ómar H. Kristmundsson, prófessor

2. Ávarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra

3. Kynning á frumvarpinu, Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla

4. Umræður

Hópfjármögnun samfélagslegra verkefna

Hádegisfundur á vegum Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun.

Hópfjármögnun, þar sem margir leggja verkefni lið, er sífellt algengari leið til að fjármagna samfélagsleg frumkvöðlaverkefni. Ingi Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri Karolina Fund heldur erindi um fjármögnunarleiðina og segir frá nýjum verkefnum sem hafa verið fjármögnuð með aðferðinni. Karolina Fund er íslenskt fyrirtæki sem gerir samfélagslegum verkefnum kleift að sækja sér fjármögnun með hópfjármögnun á Íslandi.

Hér eru frekari upplýsingar.

Málþing 10. desember

Að breyta áskorunum í tækifæri með skapandi hugsun

Málþing á vegum Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun. Málþingið fer fram í streymi á Zoom. Hér má finna hlekk á streymið.

Dr. Nick Spencer, hönnuður og dósent í nýsköpunarfræðum við Northumbria University í Bretlandi, heldur erindi um hvernig breyta megi áskorunum í tækifæri með hönnunarhugsun (e. design thinking). Dr. Spencer hefur unnið með fjölda stofnana og félagasamtaka við að skapa menningu þar sem glímt er við krefjandi áskoranir með skapandi hugsun að leiðarljósi. Þetta er gert með þátttöku hagsmunaaðila þar sem áhersla er lögð á að nýta styrkleika hvers og eins til að finna sameiginlega lausn.

Dagskrá:

  • Opnun málþings
  • Að snúa vandamálum upp í tækifæri með nálgun hönnunar. Dr. Nick Spencer, hönnuður og dósent í nýsköpunarfræðum við Northumbria University í Bretlandi.
  • Umræður

____

English:

Transforming problems into opportunities. An online Zoom event organized by Vaxandi, the Center for Social Innovation at the University of Iceland and Almannaheill, the association of the third sector.

Dr. Nick Spencer is Associate Professor of Design Innovation, at Northumbria University UK. His research is interested in navigating contested futures within complex social and organisational situations. Nick develops resilience within organisations and communities by establishing frameworks, capabilities, and behaviours to respond positively to challenging situations by scoping and defining new growth opportunities using creative practices. Nick’s research is novel in three aspects of design innovation: (1) adaption of design practices to mobilise multi-stakeholder multi-disciplinary networks of topic experts and non-experts to engage in co-creation; (2) enabling debate about the social consequences of innovation within a development process; and (3) creatively aligning capabilities and conflicting priorities to desirable and responsible outcomes.

Program:

  • Opening words
  • A design-led approach to transforming wicked problems into design situations and opportunities. Dr. Nick Spencer, Associate Professor of Design Innovation, at Northumbria University UK.
  • Questions and answers

Skapandi hugsun sem aðferð við samfélagslega nýsköpun: Málstofa á vegum Vaxandi og Almannaheilla

Hönnunarhugsun hefur að undanförnu notið vinsælda sem aðferð við nýsköpun og stefnumótun. Aðferðin er ólínuleg, byggir á notendamiðaðri nálgun og sótt í verkfærakistu hönnunar. Við spyrjum, má nýta aðferðina í meira mæli í þriðja geiranum?

Dagskrá: 

1. Opnun málþings

2. Hvernig má nýta hönnunarhugsun í starfi? Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður og deildarstjóri Miðlunar og nýsköpunar hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur talar um hvernig bókasafnið hefur nýtt sér hönnunarhugsun við stefnumótun, teymsvinnu og nýsköpunarverkefni.

3. Nýsköpun og aðlögun samtaka að breyttum aðstæðum vegnaheimsfaraldurs: Kynning frá félagasamtökunum Hugarafli.

Málstofan fer fram í streymi á Zoom. Hér má finna hlekk á streymið.

Staða félagasamtaka í heimsfaraldri: Málþing Almannaheilla og Vaxandi

Í yfirstandandi faraldri hefur reynt verulega á hið skipulagða starf sem fram fer á vegum félagasamtaka og annarra sem falla undir þriðja geirann svonefnda. Fjölmörg þeirra hafa brugðist við auknum þörfum fyrir aðstoð. Félagasamtök treysta á stuðning almennings og framlög hins opinbera og einkaaðila. En hefur þessi stuðningur breyst á tímum faraldursins?

Á málþingi Almannaheilla, samtaka þriðja geirans og Vaxandi, Miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun hjá Háskóla Íslands, 29. október nk. verður þetta viðfangsefni í brennidepli. Þar verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar á samfélagslegum stuðningi almennings á tímum COVID-19.

Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu verkefni sem beinist að því að meta hvaða áhrif faraldurinn hefur á stöðu þriðja geirans. Á málþinginu verður einnig fjallað um þær áskoranir og tækifæri sem félagasamtök standa frammi fyrir. Ennfremur verður samstarfsverkefni Almannaheilla og Vaxandi um eflingu starfs félagasamtaka kynnt, m.a. sérstök vefsíða sem er ætlað að vera upplýsinga- og umræðuvettvangur fyrir íslensk félagasamtök. Slíkir vefir eru víðast til í nágrannalöndunum en hefur vantað á Íslandi.

Stjórnvöld hafa stutt við samstarfsverkefnið. Í þeim tilgangi að efla félagslegt frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun hafa ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, formaður Almannaheilla og rektor Háskóla Íslands skrifað undir sameiginlega viljayfirlýsingu.

Dagskrá málþings er sem hér segir:

  1. Setning málþings, Ómar H. Kristmundsson, prófessor
  2. Kynning á nýjum vef, Jana Eir Víglundsdóttir, verkefnisstjóri Vaxandi, Miðstöðvar um samfélagslega nýsköpun
  3. Staða þriðja geirans á tímum COVID-19, Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla
  4. Samfélagslegur stuðningur á tímum COVID-19, Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor