Útdráttur: Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvers vegna fólk tekst á hendur sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum á Íslandi og kanna hvort lýðfræðilegir þættir tengist því að fólk sinnir slíkum störfum. Spurningalisti var lagður fyrir 2.733 sjálfboðaliða Rauða krossins árið 2014 og svaraði 901 spurningunum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikill meirihluti sjálfboðaliðanna hóf sjálfboðastörf vegna lífsviðhorfa eða gildismats, en hagnýtir og/eða persónulegir þættir höfðu einnig áhrif. Lýðfræðilegir þættir tengdust því hvernig sjálfboðaliðarnir röðuðu ástæðum sínum í mikilvægisröð og þá sérstaklega aldur þátttakenda. Konur eru í miklum meirihluta meðal sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum, algengast er að fólk fimmtugt og eldra sinni sjálfboðastörfunum, fjórir af hverjum tíu hafa framhaldsskólamenntun og um þriðjungur háskólamenntun. Meira en helmingur sjálfboðaliðanna er í launavinnu og hlutfallslega fleiri stunda sjálfboðastörf á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar eru að meginstefnu til sambærilegar niðurstöðum erlendra og innlendra rannsókna á góðgerðar- og líknarfélögum og veita mikilvægar upplýsingar um ástæður þess að fólk hefur sjálfboðastörf fyrir slík félög.

Steinunn Hrafnsdóttir, Ómar H. Kristmundsson og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir. 2017. Hvers vegna gerist fólk sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum á Íslandi? Tímarit félagsráðgjafa 1(11): 11-17. 



Hlaða niður