Útdráttur: Í greininni er fjallað um þátttöku Íslendinga í sjálfboðastarfi. Rannsóknin sem byggir á gagnasafni Evrópsku lífsgildakönnunarinnar (EVS) frá 1990-2010 er sett í samhengi við alþjóðlega fræðilega umræðu um sjálfboðaliða og þátttöku í sjálfboðastörfum. Um þriðjungur Íslendinga 18 ára og eldri tók þátt í sjálfboðastörfum 2009-2010, örlítið færri en 1990, 75% voru í félögum og er það svipað hlutfall og 1990. Flestir vinna fyrir íþrótta- og tómstundafélög og félagsaðild í þeim er einnig mest. Því næst koma velferðarfélög en hlutfallslega mest hefur dregið úr sjálfboðastörfum á sviði velferðarmála. Karlar eru mun líklegri en konur til að sinna sjálfboðastörfum hjá íþrótta-og æskulýðsfélögum en í öðrum sjálfboðastörfum er ekki munur á kynjum. Algengara er að fólk eldra en 50 ára sinni sjálfboðastörfum en yngra fólk, sérstaklega fyrir velferðarfélög. Háskólamenntaðir eru líklegastir til að sinna sjálfboðastörfum. Staða á vinnumarkaði hefur áhrif hvort fólk vinnur sjálfboðastörf, sérstaklega meðal íþrótta-og æskulýðsfélaga. Gift fólk er í öllum tilvikum líklegra en aðrir hópar til að stunda sjálfboðastörf og þeir sem búa í dreifbýli eru einnig líklegri en þeir sem búa í þéttbýli til að sinna slíkum störfum. Niðurstöðurnar eru að meginstefnu sambærilegar niðurstöðum erlendra
rannsókna og veita mikilvægar upplýsingar um þátttöku í sjálfboðastarfi á Íslandi og þróun hennar í alþjóðlegu samhengi.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Ómar H. Kristmundsson og Steinunn Hrafnsdóttir. 2014. Þátttaka í sjálfboðastarfi á Íslandi. Stjórnmál og stjórnsýsla 10(2): 425-42.



Hlaða niður