Við vekjum athygli á grein formanns Almannaheilla, Jónasar Guðmundssonar, um almannaheillasamtök og Covid19 sem birtist á vef Vísis í lok ágúst. Greinin á ekki síður við í dag þegar veirufaraldurinn er í uppgangi og samkomutakmarkanir hafa verið hertar. Á tímum sem þessum er mikilvægt að félagasamtök séu í sterkri stöðu til geta látið til sýn taka og stundað nýsköpun við lausn þeirra vandamálanna sem við stöndum nú frammi fyrir.
Hér er brot úr grein Jónasar þar sem hann lýsir vanda sem skapast hefur vegna áhrifa veirufaraldursins:
„Við fáum reglulega sögur af vandanum. Landsamband eldri borgara hefur varað við slæmum áhrifum, jafnvel lífshættulegum, af einangrun á líf eldra fólks. Lögreglan og barnavernd hafa tekið á móti fleiri tilkynningum um heimilisofbeldi en nokkru sinni. Hjálparstarf kirkjunnar hefur aldrei fengið jafnmargar beiðnir um fjárhagsaðstoð (enda eru 17.000 einstaklingar skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun, þar af 4.500 háskólamenntaðir, mun fleiri en í kjölfar bankahrunsins). Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, hafa afgreitt metfjölda matargjafa. Barnaheill og Landsamband ungmennafélaga hafa vakið athygli á kvíða og annarri andlegri vanheilsu ungs fólks. Sjúklingatengd félög hafa lýst áhyggjum af lífskjaraskerðingum sem skjólstæðingar þeirra verða fyrir vegna sóttvarnaraðgerða og annríkis heilbrigðisstofnana en að missa aðgengi að opinberri þjónustu um tíma getur haft langvarandi áhrif á veika einstaklinga.“
Greinina má nálgast í heild á vef Vísis.