„Það er afskaplega mikilvægt fyrir áframhaldandi þróun á árangursríkri íþróttaþjálfun barna og unglinga hér á landi að rannsaka hvort inngripið virki og þá hvernig. Við hlökkum til að takast á við þetta spennandi verkefni í samstarfi við öfluga samstarfsaðila.“
Þetta segir Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar HR í samtali við UMFÍ um verkefni á vegum Sýnum karakter. Verkefnið hefur hlotið tæplega 30 milljón króna styrk úr Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins. Sýnum karakter er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ.
Um er að ræða nýja aðferðafræði þar sem þættir, aðrir en þeir líkamlegu, eru þjálfaðir kerfisbundið. Aðferðafræðin er þróuð af Dr. Chris Harwood, íþróttasálfræðingi við Loughborough háskólann í Bretlandi. Þættirnir eru skuldbinding, samskipti, sjálfstraust, sjálfsagi og einbeiting (e. Commitment, Communication, Confidence, Self-Control og Concentration).
Loughborough háskólinn í Bretlandi mun í samstarfi við Háskólann í Reykjavík sjá um rannsóknarhluta verkefnisins. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru ÍSÍ, UMFÍ, Knattspyrnusambandi Íslands og Fimleikasambandi Íslands.
Nánari upplýsingar má finna á vef UMFÍ.