Háskóli Íslands er á nýútgefnum lista Times Higher Education yfir háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Háskóli Íslands er í sæti 301-400 á listanum sem kallast University Impact Rankings.
Háskólinn fær einkunn fyrir frammistöðu sína í hverju heimsmarkmiði sem eru 17 talsins. Háskóli Íslands stendur fremst í markmiðum sem snerta heilsu og vellíðan, nýsköpun og uppbyggingu og ábyrga neyslu og framleiðslu.
„Það er mjög ánægjulegt að Háskóli Íslands sé þriðja árið í röð á lista yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg áhrif. Háskólastarfið byggist að stórum hluta á því að hafa góð áhrif á nærsamfélagið og við leitum stöðugt leiða til að bæta okkur og auka þau áhrif. Við tökum enn fremur þátt í Aurora-bandalagi öflugra evrópskra háskóla þar sem áherslan er líka á samfélagsleg áhrif og loftslags- og sjálfbærnimál skipa jafnframt mikilvægan sess í því samstarfi. Við væntum þess að halda áfram að láta gott af okkur leiða á þeim vettvangi íslensku samfélagi til góða.“ Þetta er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands í vef Háskóla Íslands.