Þann 1. nóvember tóku í gildi lög nr. 32/2021 um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Meðal þeirra skilyrða sem lögaðilar þurfa að uppfylla til þess að gjafir eða framlög til þeirra skapi frádráttarrétt hjá gefanda er að um sé að ræða eftirfarandi starfsemi móttakanda: Mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindalega rannsóknarstarfsemi, starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða, neytenda- og forvarnastarfsemi, starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Viðkomandi móttakandi gjafar eða framlags þarf að vera skráður í almannaheillaskrá á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag veitt. Hægt er að skrá almannaheillafélag á heimasíðu skattsins sem og sækja um breytingu á almennu félagi yfir í almannaheillafélag.
Sjá link á upptöku frá Fundi fólksins á kynningu Ómars H. Kristmundssonar prófessors á nýju laga- og starfsumhverfi almannaheillasamtaka. Ómar fjallar meðal annars um hvernig breytingarnar fela í sér aukna hvatning til fyrirtækja og einstaklinga til þess að styðja við almannaheillastarfsemi.