Er almenningur að sýna samfélagslegan stuðning á tímum COVID19?

Um 35% svarenda í spurningalistakönnun á vegum Háskóla Íslands segjast hafa gefið peninga til góðgerðamála vegna COVID19. Í sömu könnun greina um 11% svarenda frá því að þeir hafi unnið sjálfboðaliðastörf fyrir félagasamtök sérstaklega vegna COVID19 og um 13% hafa aðstoðað ókunnuga  sem hafa þurft á því að halda vegna faraldursins.

Frá þessu greinir Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands á málþingi Vaxandi um stöðu félagasamtaka á tímum COVID19. Þetta eru frumniðurstöður rannsóknar um samfélagslegt framlag á tímum COVID19 sem Steinunn og Ómar H. Kristmundsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands vinna að. Samfélagslegur stuðningur í þessu samhengi getur verið sjálfboðaliðasatarf hjá félagasamtökum, þátttaka í nýjum samtökum eða hópum, framlög eða gjafir til góðgerðamála eða ókunnugra, peningalán til ókunnugra og veitt hjálp til ókunnugra sem og til tengdra aðila. 

„Það sem við sjáum hér er að fólk er, almennt séð, að láta gott af sér leiða vegna COVID sem kemur alls ekki á óvart því alþjóðlegar rannsóknar sýna að þegar verða hamfarir, áföll, farsóttir þá er það kannski í eðli manneskjunnar að hjálpa öðrum“ segir Steinunn á málþinginu. 

Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu verkefni en fræðimenn í 15 mismunandi ríkjum vinna að rannsóknum þar sem notaðir eru hliðstæðir spurningalistar. Fróðlegt verður að sjá samanburð milli ríkja í lokaniðurstöðum rannsóknarinnar sem verða birtar á vefsíðu Vaxandi. 

Deila efni:

Share on facebook
Share on twitter

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *